Erlent

Kórónuveiran mögulega komin til að vera

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Myndin er tekin í New York-borg sem er sá staður í Bandaríkjunum sem farið hefur einna verst út úr faraldrinum.
Myndin er tekin í New York-borg sem er sá staður í Bandaríkjunum sem farið hefur einna verst út úr faraldrinum. Getty/Spencer Platt

Svo gæti farið að nýja kórónuveiran, sem veldur sjúkdómnum Covid-19, sé komin til að vera. Þetta sagði einn af yfirmönnum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) á blaðamannafundi í gærkvöldi.

Yfirmaðurinn, Mike Ryan, varaði við því að menn reyni að setja tímaramma á það hvenær veiran muni hverfa og bætti hann við að jafnvel þótt bóluefni muni finnast, muni það verða gríðarlegt átak fyrir þjóðir heimsins að bólusetja alla jarðarbúa.

Ryan minnti síðan á að svo gæti líka farið að mönnum mistakist einfaldlega að búa til bóluefni, líkt og gerst hefur með HIV og hið venjulega kvef, og þá þurfi heimsbyggðin að læra að lifa með sjúkdómnum.

Sem stendur eru meira en 100 möguleg bóluefni í þróun gegn veirunni en Ryan benti á að sumum sjúkdómum, líkt og mislingum, hafi ekki tekist að útrýma þrátt fyrir að bóluefni sé til gegn þeim.

Meira en 300 þúsund manns hafa látist í heiminum af völdum Covid-19 og staðfest smit eru orðin meira en 4,3 milljónir.

Á meðan WHO varar við því að veiran sé mögulega komin til að vera, vara Sameinuðu þjóðirnar við alvarlegum áhrifum faraldursins á geðheilbrigði, sérstaklega í löndum þar sem skort hefur á uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustu.

Hvetja Sameinuðu þjóðirnar stjórnvöld um allan heim til þess að huga að geðheilbrigði í þeim aðgerðum sem gripið er til í bregðast við kórónuveirunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×