Roberto Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City, vill losna við Carlos Tevez frá félaginu eftir að sá síðarnefndi neitaði að koma inn á sem varamaður gegn Bayern München í Meistaradeild Evrópu í kvöld.
Mancini var afar óánægður með Tevez eftir leikinn í kvöld eins og áður hefur komið fram hér á Vísi. „Ef ég fæ einhverju ráðið fer hann frá félaginu,“ er haft eftir Mancini á fréttavef BBC. „Hvað mig varðar er hann búinn.“
„Hann neitaði að koma inn á. Það sem ég sagði við Tevez ætla ég að halda á milli okkar í liðinu en ég varð fyrir miklum vonbrigðum með Carlos. Það er ég sem ákveð hvenær menn eiga að koma inn á og spila.“
„Þetta er í raun vonlausar aðstæður. Það skiptir máli að leikmenn hjálpi liðinu sínu. Þetta er mjög slæmt.“
„Það er alveg ljóst að leikmaður, sem fær mjög vel borgað frá Manchester City, getur ekki neitað því að spila fyrir félagið. Við munum ræða þetta mál við stjórnarformanninn á næstu dögum.“
