Enski boltinn

Styttist í það að Pogba komi til baka

Ísak Hallmundarson skrifar
Pogba er allur að koma til
Pogba er allur að koma til vísir/getty

Paul Pogba, leikmaður Manchester United, hefur verið frá keppni síðan í desember vegna meiðsla á ökkla. Hann nálgast nú endurkomu sína, en Ole Gunnar Solskjær, þjálfari Man Utd, hefur staðfest að hann muni æfa með aðalliðinu í næstu viku.

Pogba sem er 26 ára gamall hefur aðeins komið við sögu í átta leikjum hjá Manchester United á þessari leiktíð.

Fjarvera hans hefur hrundið af stað miklum sögusögnum um að hann muni yfirgefa þá rauðu frá Manchester-borg í annað sinn núna í sumar. Hann fór frá United til Juventus á frjálsri sölu árið 2012 en sneri síðan aftur til Manchester árið 2016 þegar United keypti hann á 89 milljónir punda.

Juventus og Real Madrid hafa sýnt Pogba áhuga en Solskjær vonast til að hann spili lokahluta tímabilsins fyrir Rauðu Djöflanna. Það gæti þó enn verið einhver bið eftir því að hann snúi aftur inn á fótboltavöllinn.

,,Paul (Pogba) er enn að vinna með sjúkraþjálfurum og mun ekki æfa með aðalliðinu fyrr en í næstu viku,‘‘ sagði Solskjær. ,,Síðan sjáum við til, hann þarf tíma til að venjast leiknum aftur.‘‘

United er í harðri baráttu um sæti í Meistaradeild Evrópu og þegar 10 leikir eru eftir af ensku úrvalsdeildinni er liðið þremur stigum á eftir Meistaradeildarsæti.

Næsti leikur United er í kvöld gegn Derby County í FA-bikarnum og á sunnudaginn tekur síðan við borgarslagur gegn Manchester City sem fer fram á Old Trafford.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×