Fótbolti

Birkir: Eiður Smári henti okkur inn í röðina fyrir framan Guardiola og Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen fagnar  með Pep Guardiola, Lionel Messi og öllum hinum hjá Barcelona eftir að liðið lenti í Barcelona eftir flugið heim frá Róm í maí 2009.
Eiður Smári Guðjohnsen fagnar  með Pep Guardiola, Lionel Messi og öllum hinum hjá Barcelona eftir að liðið lenti í Barcelona eftir flugið heim frá Róm í maí 2009. EPA/ALBERTO ESTEVEZ

Hver hefði ekki þegið það að skemmta sér með stórstjörnum Barcelona eftir að þeir unnu þrennuna vorið 2009. Birkir Kristinsson var svo heppinn að fá að vera með í fjörinu í Rómarborg.

Birkir Kristinsson, leikjahæsti markvörður íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, sagði margar skemmtilegar sögur frá ferlinum og ævi sinni þegar hann var gestur í hlaðvarpsþættinumn Miðjunni á Fótbolta.net.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Barcelona liðsins, fékk flugferð eftir úrslitaleikinn í Meistaradeildinni 2009.EPA/ROBERTO TEDESCHI

Eiður Smári Guðjohnsen var með Barcelona liðinu á sögulegu tímabilið liðsins 2008-09 en liðið hafði þegar tryggt sér sigur í spænsku deildinni og í spænska bikarnum þegar var komið að úrslitaleik Meistaradeildarinnar á móti Manchester United í Róm.

Eiður Smári reddaði góðum miðum

„Ég og frúin vorum á leiknum. Eiður var í hópnum hjá Barcelona og fékk okkur út og var með miða og allt. Við skelltum okkur út og vorum á mjög fínum stað og horfðum á leikinn," segir Birkir Kristinsson í hlaðvarpsþættinum en frúin var tónlistarkonan Ragnhildur Gísladóttir.

Barcelona vann leikinn 2-0 með mörkum frá Samuel Eto'o og Lionel Messi. Eiður Smári var allan tímann á bekknum en í byrjunarliðinu voru auk Messi og Eto'o leikmenn eins og Xavi, Andrés Iniesta, Thierry Henry. Þetta var fyrsta tímabil Pep Guardiola og hann notaði bara tvær af þremur skiptingum sínum í leik. Eiður fékk því ekki að koma inn á í leiknum.

„Við ætluðum heim á hótel eftir leik en Eiður hringdi og bað okkur að koma á stað þar sem leikmennirnir voru. Hann gaf mér heimilisfang og við tókum leigubíl þangað en þar var allt stappað og ekki séns að komast áfram. Þá voru þeir inni í húsi þar sem var móttaka fyrir þá en þjappað fyrir utan og við komumst ekki áfram," hélt Birkir áfram í viðtalinu.

Lionel Messi og Andres Iniesta með Meistaradeildarbikarinn í leikslok.EPA/ETTORE FERRARI

Léku saman eftirminnilega landsleiki

Eiður Smári og Birkir þekktust vel síðan þeir léku saman í íslenska landsliðinu. Alls náðu Eiður Smári og Birkir að spila saman átta landsleiki og Birkir Kristinsson hélt hreinu bæði í fyrsta landsleik Eiðs árið 1996 sem og þegar Eiður Smári opnaði markareikning sinn með íslenska landsliðinu í september 1999.

Síðasti leikur þeirra saman var frægur 2-0 sigur á Ítalíu í vináttuleik á Laugardalsvellinum 18. ágúst 2004.

Fóru með í rútuna með liðinu

Birkir sagði meira frá þessu eftirminnilega kvöldi.

„Ég hringi í Eið og hann segir okkur hvar við eigum að koma og þegar við komum að þeirri hurð eru þeir að fara. Við sjáum þá labba út um hlið og hann segir okkur að koma okkur þangað. Á endanum komumst við að og Eiður henti okkur inn í röðina fyrir framan Guardiola og Messi var beint á undan okkur. Við fórum svo inn í rútu með liðinu. Þetta var svolítið fríkað," sagði Birkir en í kjölfarið voru þau með liðinu er það skemmti sér um kvöldið. Morguninn eftir héldu þau síðan til Barcelona og fögnuðu með liðinu þar líka.

Það má finna allt viðtalið með því að smella hér.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.