Erlent

Íslendingar á Filippseyjum búa sig undir fellibylinn

Þessi gerfitunglamynd frá Nasa sýnir storminn nálgast eyjarnar.
Þessi gerfitunglamynd frá Nasa sýnir storminn nálgast eyjarnar. Visir/AFP
Tugþúsundir manna hafa þurft að flýja heimili sín á Filippseyjum og í neyðarskýli en búist er við því að fellibylurinn Hagupit, sem einnig er kallaður Ruby, skelli á eyjunum á morgun. Mesti vindhraði í storminum hefur mælst 250 kílómetrar á klukkustund og ljóst er að hann gæti ollið gríðarlegu tjóni á landsvæði sem varð afar illa úti í stormi í fyrra, þar sem sjöþúsund manns létu lífið.

Hópur Íslendinga er staddur á eyjunni Biliran á vegum Jarðborana en búist er við að veðrið gangi þar yfir af fullum þunga. Baldur Gylfason segir í samtali við fréttastofu nú í morgun að veðrið sé enn gott og að allar varúðarráðstafanir hafi verið gerðar.

Búið er að ganga frá öllu á vinnusvæðinu og starfsmennirnir komnir á hótel í bænum Naval þar sem þeir ætla að bíða af sér storminn. Baldur segir að ekki sé búist við að fellibylurinn verði jafn öflugur og sá sem gekk yfir í fyrra en þó ber að líta til þess að svæðið er enn illa farið eftir síðustu hamfarir og húsakostur því víða bágborinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×