Fótbolti

Býr á æfinga­­svæðinu, hleypur í bíla­kjallaranum og var stöðvaður af lög­­reglunni í búðar­­ferð

Anton Ingi Leifsson skrifar
Christian Eriksen á æfingu Inter áður en veiran skall á.
Christian Eriksen á æfingu Inter áður en veiran skall á. vísir/getty

Christian Eriksen gekk í raðir Inter í janúarglugganum. Hann náði ekki að finna sér hús áður en kórónuveiran skall á og nú býr hann þar af leiðandi á æfingasvæði Inter.

Eriksen var í viðtali við The Sun þar sem hann sagði frá því hvernig lífið væri hjá honum á Ítalíu en landið hefur farið einna verst út úr kórónuveirunni. Hann bjó á hóteli áður en öllu var lokað.

„Ég íhugaði að tala við Lukaku eða Ashley Young en þeir eru með fjölskyldu svo að sofa í fjórtán daga á sófanum hjá einhverjum er of langur tími,“ sagði Daninn við The Sun.

„Ég endaði á því að dvelja á æfingasvæðinu með kokkinum og fimm úr þjálfarateyminu sem eru í sjálfskipaðri sóttkví þar til þess að verja fjölskyldu sína.“

Eriksen ætlaði að hoppa út í búð á dögunum en það gekk ekki vel því hann var stöðvaður af lögreglunni.

„Lögreglan stöðvaði mig og ég reyndi á minni slöku ítölsku að reyna útskýra hvað ég væri að gera og hvert ég væri að fara.“

Hann segir að leikmennirnir hafi haldið sér vel við en segist sjálfur hafa lent í nokkrum vandræðum með að æfa.

„Við fylgjum áætlun frá félaginu, bæði æfinga- og matarlega séð. Ég hef verið að hlaupa í bílakjallaranum. Ég get hlaupið 35 metra áfram og verð svo að snúa við. Ég hef ekki snert bolta í sjö vikur og það er það lengsta í mínu lífi svo ég sakna þess.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×