Erlent

Forseti Hondúras sakaður um að þiggja dóppeninga

Kjartan Kjartansson skrifar
Juan Orlando Hernández, forseti Hondúras, er bendlaður við fíkniefnasmygl.
Juan Orlando Hernández, forseti Hondúras, er bendlaður við fíkniefnasmygl. AP/Jacquelyn Martin

Bandarískir saksóknarar telja að Juan Orlando Hernández, forseti Hondúras, hafi þegið jafnvirði á fjórðu milljón króna frá þekktum fíkniefnasmyglurum árið 2013. Í staðinn hafi Hernández haldið hlífiskildi yfir glæpamönnunum gagnvart löggæsluyfirvöldum.

Hernández er lýst sem vitorðsmanni en er ekki ákærður í fíkniefnamáli sem bandarískir alríkissaksóknarar í New York sækja. Hann er ekki nefndur á nafn í dómsskjölum en er lýst sem forseta Hondúras og bróður Juan Antonio Hernández Alvarado, fyrrverandi þingmanns, sem var sakfelldur vegna fíkniefnabrota í fyrra, að sögn AP-fréttastofunnar.

Ekki er ljóst hvort að Hernández forseti á að hafa þegið múturnar frá fíkniefnasmyglurunum fyrir eða eftir að hann var kjörinn forseti í kosningum árið 2013. Hann tók við embætti forseta í janúar árið eftir. Forsetinn hefur ítrekað hafnað ásökunum um tengsl við fíkniefnasmyglara.

Í dómsskjölum í máli fíkniefnasmyglarans Geovannys Daniel Fuentes Ramírez sem var handtekinn í Miami á sunnudag kemur fram að þeir Hernández hafi hist nokkrum sinnum og rætt um kókaínverksmiðju Fuentes í Hondúras. Þar hafi þeir meðal annars sammælst um að fá hermenn til að sinna öryggisgæslu fyrir fíkniefnasmygl Fuentes.

Hernández hefur áður verið sakaður um þiggja fé frá fíkniefnaheiminum. Saksóknarar í Bandaríkjunum fullyrtu í ágúst að hann hefði þegið 1,5 milljónir dollara, jafnvirði um 191 milljónar íslenskra króna, frá fíkniefnasmyglurum til að fjármagna kosningabaráttu sína árið 2013. Þegar réttað var yfir bróður hans í fyrra héldu saksóknarar ítrekað því fram að Hernández hefði sjálfur notið fjárhagslegs stuðnings fíkniefnabaróna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×