Enski boltinn

Mancini veit ekkert hvað verður um Carlos Tevez

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Mancini og Carlos Tevez.
Roberto Mancini og Carlos Tevez. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, segist ekki vita hvort að Carlos Tevez muni spila aftur fyrirr City en annars var enskum blaðamönnum tilkynnt um það að þeir mættu ekki spyrja um mál tengdum argentínska framherjanum þegar Mancini mætti til að ræða um leik City og Aston Villa sem fram fer í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

Fyrir blaðamannafundinn var fjölmiðlamönnum tilkynnt um það að Mancini myndi enda fundinn og yfirgefa salinn ef að hann yrði spurður út í Tevez. Einn blaðamaðurinn freistaðist samt til að spyrja um hvort Tevez ætti framtíð hjá City. "Ég veit það ekki," svaraði Roberto Mancini og blaðamaðurinn slapp með skrekkinn.

„Við höfum bara þrjá framherja eins og er," sagði Mancini og vísaði hann þá til þeirra Sergio Agüero, Mario Balotelli og Edin Dzeko en Mancini ætlar þó að fara varlega með Agüero sem tognaði á lærvöðva í síðasta leik.

Mancini fullvissaði stuðningsmenn City um að þeir þyrftu ekki að hafa áhyggjur af klúbbnum sínum og hann sjálfur væri mjög vanur því að starfa undir pressu eftir fjögur ár hjá Internazionale.

„Ef þið talið við þá Rafael Benítez, Marcello Lippi eða Leonardo þá taka þeir örugglega undir með mér að þar sé pressan mikil. Ef maður nær að vera fjögur ár hjá Inter þá getur maður starfað hvar sem er," sagði Mancini.

„Það eru engin vandamál hjá mér. Ég hef kynnst ýmsu í mínu lífi og er ekki að láta neina pressu hafa áhrif á mig," sagði Mancini sem sagði ennfremur að hann væri orðinn betri stjóri en þegar hann kom til City fyrir tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×