Erlent

Kínverjar bjóða Norður-Kóreu aðstoð vegna faraldursins

Kjartan Kjartansson skrifar
Norður-kóresk landamærastöð handan hlutlausa svæðisins á mörkum Norður- og Suður-Kóreu. Óstaðfestar fregnir hafa verið um að norður-kóreskum landamæravörðum hafi verið skipað að skjóta hvern þann sem reynir að fara yfir landamæri landsins að Kína vegna faraldursins.
Norður-kóresk landamærastöð handan hlutlausa svæðisins á mörkum Norður- og Suður-Kóreu. Óstaðfestar fregnir hafa verið um að norður-kóreskum landamæravörðum hafi verið skipað að skjóta hvern þann sem reynir að fara yfir landamæri landsins að Kína vegna faraldursins. Vísir/EPA

Forseti Kína hefur áhyggjur af hvaða áhrif kórónuveirufaraldurinn gæti haft á nágrannaríki Norður-Kóreu þrátt fyrir að alræðisstjórnin þar haldi því fram að ekkert smit hafi greinst í landinu. Stjórnvöld í Beijing hafa boðið Norður-Kóreu aðstoð í að bregðast við faraldri.

Í þakkarskilaboðum til Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, lagði Xi Jinping, forseti Kína, áherslu á samstarf ríkjanna til að fyrirbyggja útbreiðslu veirunnar í Norður-Kóreu. Kínversk stjórnvöld væru reiðubúin að aðstoða Norður-Kóreu í að berjast gegn veirunni.

Heilbrigðiskerfi Norður-Kóreu er sagt veikburða og talið geta hrunið undan álagi jafnvel þó að faraldur nýs afbrigðis kórónuveiru sem veldur Covid-19 yrði smár í sniðum þar.

Sérfræðingar véfengja fullyrðingar stjórnvalda í Pjongjang um að enginn hafi smitast í landinu þrátt fyrir að Norður-Kórea hafi verið fyrsta landið til að banna komur ferðamanna í janúar, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Faraldur hefur enda geisað í Kína til norðurs og í Suður-Kóreu til suðurs. Svarti markaðurinn í Norður-Kóreu byggir á ólöglegum viðskiptum yfir landamærin að Kína.

Miklar vangaveltur hafa verið um heilsu Kim sjálfs eftir að hann sást ekki opinberlega í tuttugu daga og missti af hátíðarhöldum í tilefni af afmæli afa síns. Sögur um að Kim væri helsjúkur eða jafnvel látinn gengu fjöllunum hærra þrátt fyrir að suður-kóreska leyniþjónustan segði engar vísbendingar um það. Kim skaut svo upp kollinum í heimsókn í áburðarverksmiðju 2. maí.


Tengdar fréttir

Kim mættur aftur til starfa

Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, mætti í gær á opnunarathöfn áburðarverksmiðju í útjaðri Pyongyang en hann hafði ekki sést opinberlega í tuttugu daga og héldu margir að Kim væri alvarlega veikur eða jafnvel fallinn frá vegna fjarveru sinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×