Innlent

400 milljónir fara í stuðning við einkarekna fjölmiðla

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar.
Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar. Vísir/Vilhelm

Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis leggur til að fjárstuðningur við einkarekna miðla í kórónuveirufaraldrinum verði aukinn um 50 milljónir, frá því sem boðað var í öðrum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar. Formaður fjárlaganefndar segir að mikill stuðningur sé við aðgerðirnar, þó svo að stjórnarflokkarnir hafi áður tekist á um fjárveitingar til fjölmiðla.

Í öðrum aðgerðapakka stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins var kveðið á um 350 milljóna króna stuðning við einkarekna fjölmiðla, til að mæta tekjufalli sem orðið hefur vegna minni auglýsingasölu sem hlaupið hefur á tugum prósenta í sumum tilfellum.

Í fjárlögum ársins er hins vegar gert ráð fyrir allt að 400 milljóna króna stuðningi við einkarekna miðla í tengslum við fjölmiðlafrumvarp lilju alfreðsdóttur menntamálaráðherra.

Meirihluti fjárlaganefndar hefur nú lagt til að nýta þessa 400 milljóna heimild í fjárlögum og verður kórónuveirustuðningurinn því aukinn um 50 milljónir, eða eins og Willum Þór Þórsson formaður fjárlaganefndar orðar það:

„Við leggjum það til að ráðherra verði heimilt með útfærslu í reglugerð að koma stuðningi til einkarekinna fjölmiðla, allt að 400 milljónum, sem eru í til staðar í gildandi fjárlögum.“

Þrátt fyrir að fjölmiðlafrumvarpið sem nú er til umfjöllunar hjá allsherjar og menntamálanefnd sé umdeilt segir Willum að faraldursframlagið til fjölmiðla njóti stuðnings.

„Það var algjör samstaða um það að bregðast við þessu ástandi og hraða því að koma þessum stuðningi til fjölmiðla, þannig það var algjör samstaða um það í þinginu.“

Willum gerir ráð fyrir að vinnu við fjölmiðlastuðninginn verði lokið á mánudag.

„Lagagreinin í aðgerðafrumvarpinu, eða bandorminum svokallaða, er þess efnis að hún rammar þetta inn fyrir ráðherrann. Þetta ætti að geta gerst þá hraðar heldur en að fjalla áfram um það frumvarp sem lá fyrir,“ segir Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.