Erlent

Sjaldan meiri kosningaáhugi

Starfsmenn kosningastjórna víða í Bandaríkjunum höfðu vart undan í gær þegar fjöldi fólks streymdi á skrifstofur kosningastjórna og sýslumannsembætta til að skrá sig á kjörskrá. Víðast hvar í Bandaríkjunum er sömu sögu að segja, mun meira er um nýskráningar kjósenda en fyrir fjórum árum og skráningamet falla í hrönnum. Matt Damschroder, sem ber ábyrgð á skráningum í Columbus í Ohioríki, sagði í New York Times að aðsókninni mætti helst líkja við örtröðina þegar frestur til að skila skattaskýrslum rennur út. Hann hefur ráðið inn aukastarfsfólk til að anna álaginu og lét afgreiða fólk utandyra til að anna álaginu. Frestur til að skrá sig á kjörskrá rann út í átta ríkjum um helgina og þegar vikan er úti verður orðið of seint að skrá sig í 39 ríkjum. Þeirra á meðal er Pennsylvanía, fjölmennasta ríkið þar sem hvorki George W. Bush né John Kerry hafa náð óyfirstíganlegu forskoti á andstæðinginn. Þar rann skráningarfrestur út í gær, líkt og í New Jersey og Oregon. Einungis sex ríki gefa fólki kost á að bæta nafni sínu á kjörskrá á kjördag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×