Cristiano Ronaldo var mjög fúll eftir jafnteflið gegn Íslandi í fyrsta leik liðanna á EM 2016 í fótbolta í gær en eftir leikinn tók hann ekki í hendur strákannna okkar og lét svo miður falleg orð falla um íslenska liðið í viðtölum eftir leik.
Kári Árnason svaraði ummælum Ronaldo hressilega í viðtali við breska blaðamenn eftir leikinn í gær en fannst Lars að þessi annar af tveimur bestu fótboltamönnum heims hefði sýnt okkar mönnum óvirðingu?
Sjá einnig:Heimir: Kom enginn hingað til að taka í höndina á Ronaldo
„Ég get ekki sagt það. Þegar menn eru mjög svekktir hegða þeir sér stundum eins og þeir gera vanalega ekki,“ sagði Lars í samtali við Vísi fyrir æfingu íslenska liðsins í Annecy í dag.
„Hann hélt eflaust að Portúgal myndi vinna auðveldlega. Hann vildi líka eflaust skora mörk,“ bætti Lars við.
Ronaldo var virkilega góður í fyrri hálfleik og lagði upp dauðafæri fyrir Nani sem Hannes Þór Halldórsson varði meistaralega. Í þeim síðari sást hann lítið þökk sé öflugum varnarleik íslenska liðsins.
„Hann átti ekki einn sinn besta leik þökk sé að við lokuðum á hann þannig ég skil að hann sé mjög svekktur. Þetta skiptir mig í raun engu máli svo framarlega að þeir sýni virðingu úti á vellinum þegar við erum að spila," sagði Lars Lagerbäck.
Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).
