Enski boltinn

Segja að De La Cruz gæti ýtt Gylfa út hjá Everton

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nicolas De la Cruz í leik með argentínska félaginu River Plate þar sem hann hefur verið að gera góða hluti síðustu ár.
Nicolas De la Cruz í leik með argentínska félaginu River Plate þar sem hann hefur verið að gera góða hluti síðustu ár. Getty/Marcelo Endelli

Argentínska blaðið Olé segir frá áhuga Everton á hinum 22 ára gamla miðjumanni River Plate en Nicolas De La Cruz hafði áður verið orðaður við Manchester City í vetur.

Everton er samt að keppa um leikmanninn við þýska liðið Borussia Dortmund samkvæmt frétt Olé en De La Cruz hefur spilað með argentínska félaginu River Plate frá árinu 2017.

Nicolas De La Cruz er alinn upp hjá liði Liverpool en ekki liðinu úr Bítlaborginni heldur liði Liverpool frá Montevideo.

Nicolas De La Cruz hefur skorað 11 mörk og gefið 20 stoðsendingar í 79 leikjum fyrir River Plate.

Sumir hafa reyndar áhyggjur af hæð leikmannsins en Nicolas De La Cruz er aðeins 167 sentímetrar á hæð. Hann er hins vegar með góða tækni, snöggur og vinnusamur. Það er líka með honum að hann er fæddur árið 1997 og á því öll sín bestu ár eftir.

Nicolas De La Cruz getur spilað í bestu stöðunni hans Gylfa og óttast því sumir að hann muni ýta íslenska landsliðsmanninum út kaupi Everton hann. De La Cruz getur einnig spilað á báðum vængjum.

De La Cruz var orðaður við Manchester City í nóvember en það er hægt að kaupa upp samninginn hans fyrir nítján milljónir punda. Pep Guardiola tókst ekki að landa honum í janúar og nú er að sjá hvort Carlo Ancelotti takist það í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×