Innlent

Erill hjá tryggingarfélögum

Mikill erill hefur verið hjá starfsmönnum tryggingafélaganna í dag vegna brunans. Ef íbúðareigendur eru ekki sjálfir með tryggingar, þurfa þeir að bera tjón vegna sóts og reyks sjálfir. Öll tryggingafélögin verða með fólk á vakt í kvöld og lengur til að taka við tilkynningum um tjón vegna brunans. Og það hefur verið mikill erill í dag hjá þeim öllum. Hjálmar Sigurþórsson, deildarstjóri hjá Tryggingamiðstöðinni, segir mikið hafa verið hringt og enn sé verið að sinna fyrirspurnum vegna þessa. Hjálmar segir tjónið ekki mikið, fyrst og fremst sé um að ræða hreinsun og sums staðar þurfi að mála veggi. Það skýrist þó betur á morgun hve mikið tjónið hafi verið. Hjálmar segir engan veginn hægt að meta tjóninð núna. Íbúðareigendur sem einungis eru með lögboðnar tryggingar þurfa sjálfir að bera skaðann af tjóni á innbúi. Hjálmar segir að starfsmenn Tryggingamiðstöðarinnar muni heimsækja viðskiptavini á svæðinu bæði þá sem hafa tilkynnt tjón sem og hina. Þrátt fyrir að tjón virðist ekki mjög mikið hjá almenningi, er þetta tjónamál samt eitt hið víðtækasta sinnar tegundar. Hjálmar segist ekki muna eftir slíku umfangi á tryggingarmáli, enda spúi dekk frá sér gríðarlega mikið af eiturefnum og það sé það sem valdi mesta tjóninu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×