Erlent

Lebedev dæmdur í Moskvu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Alexander Lebedev.
Alexander Lebedev. Mynd/AP
Rússneski auðkýfingurinn Alexander Lebedev hefur verið dæmdur til 150 klukkustunda samfélagsþjónustu fyrir að kýlt annan auðkýfing, Sergei Polonskí, í spjallþætti í sjónvarpi haustið 2011.

Lebedev er útgefandi dagblaðsins Novaja Gazeta, sem hefur verið óhrætt við að gagnrýna rússnesk stjórnvöld.

Saksóknari hafði fellt niður aðra ákæru á hendur Levedevs fyrir óspektir, sem hefði getað kostað hann fangelsisdóm.

Lebedev hefur sagt að pólitískar hvatir hafi legið að baki málsókninni á hendur honum. Hann hefur þó ekki fullyrt að Vladimír Pútín forseti eigi beina aðild að því.

Margir blaðamenn í Rússlandi, sem hafa gagnrýnt stjórnarhætti í Rússlandi og spillingu í æðstu röðum, hafa orðið fyrir margs konar óþægindum. Fjórir hafa hreinlega verið myrtir, þar á meðal blaðakonan Anna Politkovskaja sem skrifaði einmitt fyrir dagblaðið Novaja Gazeta.

Lebedev er sjálfur fyrrverandi KGB-maður eins og Pútín forseti. Hann auðgaðist á bankastarfsemi, hefur tekið virkan þátt í stjórnmálum og hefur auk dagblaðsins Novaja Gazeta einnig tekið þátt í fjármögnun bresku dagblaðanna The Independent og The Evening Standard.

Af Polonskí, sem kýldur var í sjónvarpinu, er það að segja að hann sat þrjá mánuði í fangelsi í Kambódíu fyrr á þessu ári fyrir að hafa ráðist á áhöfn báts um áramótin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×