Innlent

Iðnaðar­ráð­herra myndi fagna því að orku­verð til stór­iðju yrði opin­bert

Heimir Már Pétursson skrifar
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, iðnaðarráðherra.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, iðnaðarráðherra. Vísir/vilhelm

Iðnaðarráðherra segir að það myndi hjálpa ef allt væri upp á borðum við mat á stöðu Isal, þar með raforkuverðið. Þá muni óháð úttekt á samkeppnishæfni orkufreks iðnaðar í landinu liggja fyrir áður en Isal tekur ákvörðun um framtíð sína á Íslandi.

Eigendur Isal þrýsta á Landsvirkjun og íslensk stjórnvöld að lækka raforkuverð til álversins í Straumsvík og lýstu því yfir í gær að svo gæti farið að álverinu verði lokað fáist ekki betri kjör.Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir iðnaðarráðherra kynnti hins vegar í síðustu viku að farið yrði í óháða úttekt á samkeppnishæfni orkufreks iðnaðar á Ísland.

„Þessi óháða úttekt mun skipta miklu máli. Þar sem fyrirtækið mun milliliðalaust fá upplýsingar frá bæði Landsvirkjun og þessum stóru fyrirtækjum sem við seljum nánast alla raforku til. Þannig að það er staðan eins og hún sé akkúrat núna,“ segir Þórdís Kolbrún. Viðræður Isal við Landsvirkjun séu ný hafnar og hún ráðuneyti hennar sé ekki hluti af þeim viðræðum.

En í gær greindi Isal frá því að framtíðaráform fyrirtækisins muni liggja fyrir um mitt næsta sumar.

Yrði hún (úttektin) til fyrir þann tíma?

„Hún verður til fyrir þann tíma. Hún á að vera klár í lok maí,“ segir Þórdís Kolbrún.

Iðnaðarráðherra segir Isal mikilvægt íslenskum efnahag. Þótt núverandi kerfi væri ekki meitlað í stein og gæti tekið breytingum sé ekki verið að ræða vildarkjör fyrir einstök fyrirtæki, enda Íslendingar bundnir til að mynda EES reglum. Það yrði til bóta ef allar stærðir væru uppi á borðum.

Myndi það hjálpa til ef þetta væri nú bara opinbert, hvað er verið að greiða fyrir orkuna?

„Ég myndi persónulega fagna því að við næðum fram meira gagnsæi í þessum málum. Eitt er auðvitað beinn raforkukostnaður annað eru aðrir þættir í samningnum. Hvaða leið sem er fundin út úr því er það sömuleiðis atriði á milli fyrirtækja og Landsvirkjunar. En ég held að við getum ekki annað en grætt á því að fá meira gagnsæi um þessi mál þannig að ég myndi fagna því, já,“ segir Þórdís Kolbrún.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×