Erlent

Páfi viðurkennir að prestar níðist á nunnum

Kjartan Kjartansson skrifar
Frans sagði að vandamálið væri enn til staðar þó að kirkjan væri meðvituð um það og hefði reynt að aðhafast.
Frans sagði að vandamálið væri enn til staðar þó að kirkjan væri meðvituð um það og hefði reynt að aðhafast. Vísir/EPA
Frans páfi kaþólsku kirkjunnar segir kynferðislegt ofbeldi presta í garð nunna viðvarandi vandamál. Ásakanir nunna um misnotkun presta hafa komið fram undanfarin ár en þetta er í fyrsta skipti sem páfi viðurkennið vandamálið.

Nunnur á Indlandi, Afríku, Rómönsku Ameríku og Ítalíu hafa greint frá því að kaþólskir prestar hafi misnotað þær kynferðislega. New York Times segir að í sumum tilfellum hafi nunnur gengist undir þungunarrof eða borið börn presta.

Fréttamenn spurðu Frans páfa út í ásakanirnar um borð í flugvél páfa þegar hann var á leið heim til Rómar frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum í gær. „Það er satt. Það eru prestar og biskupar sem hafa gert þetta,“ svaraði páfi.

Fullyrti hann að Páfagarður ynni að því að bæta stöðu mála. Einhverjum prestum hefði verið vísað úr starfi. Sagði hann að forveri sinn í embætti, Benedikt sextándi, hefði meðal annars leyst upp nunnureglu þar sem borið hefði á „ákveðinni þrælkun kvenna“. Sú þrælkun hafi meðal annars verið kynferðisleg þrælkun af hálfu presta. Blaðafulltrúi Páfagarðs sagði síðar að nunnureglan hafi verið í Frakklandi.

Alþjóðasamtök kaþólskra nunna fordæmdi „menningu þagnar og leyndarhyggju“ sem kæmi í veg fyrir að þær stigu fram í nóvember. Tímarit kaþólskra kvenna sem Páfagarður gefur út sagði frá því fyrir nokkrum dögum að í einhverjum tilfellum hefðu nunnur verið neyddar til þess að gangast undir þungunarrof eftir presta, jafnvel þó að slíkt sé bannað samkvæmt kenningum kirkjunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×