„Ég held að ég hafi aldrei á ferlinum tapað niður 2-0 forystu með landsliði,“ sagði svekktur en smá sáttur Lars Lagerbäck, þjálfari norska landsliðsins í fótbolta, á blaðamannafundi eftir 3-3 jafnteflið gegn Svíum í undankeppni EM 2020 í Osló í gærkvöldi.
Norðmenn, sem að stóðu sig vel á móti stórliði Spánar og töpuðu aðeins 2-1, fóru frábærlega af stað í gærkvöldi og komust í 2-0 en Svíar fóru á kostum í seinni hálfleik, skoruðu þrjú mörk í röð og náðu forystunni með öðru marki Robin Quaison á 90. mínútu.
Ola Kamara bjargaði stigi fyrir Norðmenn með marki í uppbótartíma og er norska liðið því með eitt stig eftir tvo leiki en Svíar með fjögur stig eftir sigur á Rúmenum um helgina.
„Við verðum að skoða það sem að gerðist í stöðunni, 2-0. Þetta var svekkjandi en á móti þurfum við að vera þakklátir fyrir að jafna metin með síðustu spyrnu leiksins. Við vorum að tapa allt of mörgum boltum í þessum leik,“ sagði Lagerbäck.
„Leikurinn var mjög opinn og við sofnuðum stundum á verðinum. Við erum ekki eins þéttir og við viljum vera og ekki eins ákveðnir heldur. Við litum aldrei svona út á síðasta ári.“
Svíinn bjóst við mun jafnari og taktískari leik á móti samlöndum sínum en aldrei bjóst hann við slíkum rússíbana og hvað þá sex mörkum.
„Þetta var mikið rokk og ról í kvöld,“ sagði Lars Lagerbäck.
Lagerbäck um leikinn ótrúlega í gær: Þetta var rokk og ról
Tómas Þór Þórðarson skrifar
