Innlent

Á annan tug skotvopna stolið hér á landi á hverju ári

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Lögreglufulltrúi segir að á annan tug skotvopna sé stolið á hverju ári á Íslandi. Dæmi eru um að ekki sé farið eftir regluverki um geymslu og meðhöndlun, sem sé skýrt í lögum. Innflutningur skotvopna hefur aukist og er nálægt því sem var fyrir hrun. Á þriðja þúsund skotvopna eru nú flutt inn til landsins.

Löglega innfluttum skotvopnum hefur fjölgað nokkuð frá því sem var strax eftir hrun. Árið 2010 voru rúmlega tvö þúsund skotvopn flutt inn til landsins. Árið 2014 voru þau 1.315 og í fyrra nam fjöldinn 2.523 skotvopnum. Um mitt þetta ár var búið að flytja inn til landsins inntæplega 1.400 skotvopn.

Heildar fjöldinn af skotvopnum á Íslandi, um mitt þetta ár, nemur því sextíu og átta þúsund sjö hundruð þrjátíu og fjórum skotvopnum. Jónas Hafsteinsson, lögreglufulltrúi hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir mikla aðsókn í skotvopnaleyfi og merkir aukinn áhuga á byssuíþróttum og veiði.

Jónas Hafsteinsson, lögreglufulltrúi hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu,Skjáskot/Stöð 2
„Ætli það sé ekki um 40.000 haglabyssur á móti 30.000 rifflum. Skammbyssur eru ef ég man rétt, tvö til þrjú þúsund. Það byrjaði að fjölga í byssuinnflutningi 2017. Þá fór hann að komast á par við það sem var áður.“

Jónas segir að skýrar reglur séu um geymslu og meðferð skotvopna í vopnalögum. Lögin voru sett á árið 1998 og telur hann að kominn sé tími á endurskoðun. Til eru dæmi þar sem geymsla sé ekki reglum samkvæm og það sem af er ári hefur lögregla fengið tilkynningu um þjófnað á 17 skotvopnum og skotfærum.

Skjáskot/Stöð2
„Það er þó stolið 10 til 20 byssum, að meðaltali, á hverju ári. Virðist vera að fólk misskilji reglur sem segja að byssa eitt, tvö og þrjú þurfi að vera í læstri geymslu. En það er alveg skýrt í vopalögum að svo skal vera.“

Á þriðja ársfjórðungi þessa árs hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagt hald á 37 skotvopn. Þess ber þó að geta skotvopn geta verið haldlögð til að mynda úr dánarbúi. Það er ef erfingar hafi ekki leyfi til byssueignar. Það sem af er þessu ári hefur verið lagt hald á 76 skotvopn. Í fyrra voru þau í heildina 99. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×