Fótbolti

Gylfi Þór: Vinnum Andorra ef við spilum okkar leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Peralada skrifar
Ísland mætir Andorra í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2020 á föstudag. Einn allra mikilvægasti leikmaður íslenska liðsins, Gylfi Þór Sigurðsson, er klár í slaginn.

„Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að einbeita okkur að okkur sjálfum,“ sagði Gylfi Þór um hvernig það væri best að forðast það að fara niður á plan Andorra. Það er viðbúið að heimamenn munu á föstudag gera allt sem þeir geta til að tefja og trufla leik okkar manna.

„Við þurfum að hunsa allt sem þeir gera og ef við spilum okkar leik þá munum við vinna. En við þurfum algerlega að hafa einbeitinguna í lagi og láta þá ekki pirra okkur.“

Ísland á svo gerólíkt verkefni fyrir höndum strax á mánudaginn, er strákarnir okkar munu spila á heimavelli sjálfra heimsmeistaranna í París. Andstæðurnar á milli leikja verða varla meiri.

„Við höfum algerlega einbeitt okkur að leiknum á föstudag. Það er okkar mikilvægasti leikur, enda næsti leikur hjá okkur. Auðvitað er það mínus að þurfa að fara í heldur langt ferðalag daginn eftir leik, bæði með rútu og flugi, en við náum að hvílast vel eftir leik.“

Vísir fylgir eftir strákunum okkar á leið þeirra á lokakeppni EM 2020 í knattspyrnu. Stöð 2 Sport sýnir fjölda leikja í undankeppninni næstu daga, fylgstu með dagskránni á stod2.is.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×