Fótbolti

Aron Einar: Ef þig langar ekki aftur á EM þá geturðu hætt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Peralada skrifar

„Mér finnst þetta fyndin spurning,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson, spurður hvort hann skynjaði að það væri enn sama hungur og drifkraftur í íslenska landsliðinu og á fyrri árum.

„Af því að maður hefur ekkert velt þessu fyrir sér. Maður veit alveg hvernig hugsunarháttur er í þessu landsliði,“ sagði hann enn fremur.

Eftir frábært gengi íslenska liðsins síðustu árin þar sem Ísland komst bæði á EM 2016 og HM 2018 þá tók við slæmur kafli í haust, þar sem Ísland tapaði öllum leikjum sínum í Þjóðadeild UEFA. Raunar hefur Ísland ekki unnið mótsleik síðan haustið 2017.

„Við vitum hvernig tilfinningin er að komast á stórmót og ef þig langar ekki að fá hana aftur þá geturðu allt eins hætt þessu,“ sagði fyrirliðinn ákveðinn.

„Ég veit og get talað fyrir hópinn að það er gífurlegt hungur í okkur. Menn vilja segja skilið við síðasta ár, sem var erfitt. Það gekk ekki allt upp sem við lögðum upp með eins og gengur og gerist.“

Aron Einar í leik með landsliðinu. vísir/getty

Ekki mörg lið í þessum riðli sem geta stoppað okkur
„En sem betur fer er nú komin ný keppni og nýtt upphaf. Ég er hrikalega spenntur. Þetta er erfiður riðill en samt riðill sem við getum komist upp úr.“

Ísland hefur leik í undankeppni EM 2020 á föstudag, er strákarnir okkar mæta Andorra. Eftir það tekur við leikur gegn heimsmeisturum Frakklands á mánudag en þar að auki eru Tyrkland, Albanía og Moldóva í sama riðli. Tvö efstu liðin komast beint á EM 2020.

Besta leiðin til að drífa menn áfram í nýrri keppni, að sögn fyrirliðans, er að endurheimta þá sigurhefð sem var komin hjá íslenska landsliðinu.

„Við þurfum að skapa þessa sigurhefð aftur. Við unnum ekki mjög marga leiki á síðasta ári en ef okkur tekst að komast aftur á skrið þá eru ekki mörg lið í þessum riðli að fara að stoppa okkur.“


Tengdar fréttir

Aron Einar: Vildi vinna aftur með Heimi

Aron Einar Gunnarsson vildi fá tækifæri til að prófa eitthvað nýtt eftir að hafa verið á Bretlandseyjum í ellefu ár. Hann er á leið til Katar í sumar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.