Að minnsta kosti 52 fangar í brasilíska fangelsinu Altamira í Pará eru látnir eftir uppþot og átök sem áttu sér stað í fangelsinu í dag. BBC greinir frá.
Skálmöld ríkti í fangelsinu í rúma fimm klukkutíma eftir að fangar úr einni af álmum fangelsisins réðust að annarri slíkri.
Í yfirlýsingu sögðu fangelsisyfirvöld að höfuð hafi verið hoggin af sextán föngum en hinir létust eftir að kveikt var í stórum hluta byggingarinnar.
Gert er ráð fyrir 200 föngum í Altamira fangelsinu en þar afplánuðu hins vegar um 300 fangar þegar átökin hófust.
Ofbeldi er algengt í brasilískum fangelsum en rúmlega 700.000 afplána í fangelsum landsins. Fangelsi eru þá jafnan yfirfull. Forseti Brasilíu, Jair Bolsonaro, hefur lýst því yfir að hert öryggi í fangelsum landsins sé eitt af hans helstu stefnumálum.
