Maðurinn sem grunaður er um að hafa valdið bruna við Kirkjuveg á Selfossi þann 31. október með þeim afleiðingum að karl og kona létust hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 24. janúar. Rannsókn málsins er á lokametrunum.
Héraðsdómur Suðurlands úrskurðaði manninn í áframhaldandi gæsluvarðhald þann 27. desember en maðurinn hefur verið í haldi lögreglu frá því að hann var handtekinn á vettvangi. Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms síðastliðinn fimmtudag.
Í úrskurðinum kemur fram að lögregla hafi svo gott sem lokið rannsókn málsins, aðeins sé eftir frágangur rannsóknargagna en að því loknu verði málið sent til héraðssaksóknara sem taki ákvörðun um hvort maðurinn verði ákærður eða ekki.
Í greinargerð lögreglu sem tíunduð er í úrskurði Landsréttar segir að maðurinn sé undir sterkum rökstuddum grun um að hafa valdið eldsvoðanum. Niðurstöður tæknideildar vegna brunans séu á þá leið að eldsupptök hafi verið íkveikja af mannavöldum.
Kona, sem nýtur réttarstöðu sakbornings og var handtekinn á sama tíma og maðurinn vegna málsins sagðist við yfirheyrslur hjá lögreglu hafa orðið vitni að því þegar maðurinn kveikti í pizzakössum í fangi sér sem og gardínu við sófa í stofunni.
Við yfirheyrslur hjá lögreglunni sagðist maðurinn muna eftir því að hafa kveikt eld með kveikjara í pappa í stofu hússins. Við seinni yfirheyrslur neitaði maðurinn hins vegar að tjá sig.
Rannsókn á brunanum á Selfossi svo gott sem lokið

Tengdar fréttir

Segir húsráðanda á Kirkjuvegi hafa kveikt í gardínum eftir rifrildi
45 ára gömul kona, sem handtekin vegna brunans á Kirkjuvegi á Selfossi þann 31. október, tjáði lögreglu á vettvangi að húsráðandi hefði kveikt í húsinu.

Gæsluvarðhald yfir manninum framlengt um fjórar vikur
Héraðsdómur Suðurlands hefur framlengt gæsluvarðhald yfir karlmanni, sem grunaður er um að hafa valdið mannskæðum eldsvoða að Kirkjuvegi á Selfossi í lok október, um fjórar vikur.

Viðurkenndi íkveikju og sagðist vera morðingi
Tveir létust í eldsvoðanum en manninum er gert að sæta gæsluvarðhaldi til 29. nóvember næstkomandi.