Erlent

„Góðhjartaður“ þjófur hringdi í móður eftir að hann stal ösku sonar hennar

Samúel Karl Ólason skrifar
Foreldrar Dennis Bebnarz vildu dreifa ösku hans á björtum og hlýjum stað. Kýpur varð fyrir valinu.
Foreldrar Dennis Bebnarz vildu dreifa ösku hans á björtum og hlýjum stað. Kýpur varð fyrir valinu. Vísir/GETTY

Þjófur sem rændi ösku 19 ára manns úr bíl á Kýpur, hringdi grátandi í móður mannsins í gærkvöldi. Hann baðst ítrekað afsökunar og sagði henni hvar hægt væri að finna öskuna. Lögreglan fann öskuna og eru þrír í haldi vegna þjófnaðarins.

Foreldrar Dennis Bebnarz, sem var 19 ára þegar hann dó á þessu ári, vildu dreifa ösku hans á Kýpur og flugu þangað frá Svíþjóð í síðustu viku.

Aska Bebnarz var í bakpoka í bíl þeirra en henni var stolið á meðan þau voru að borða. Eftir nokkurra daga leit flugu hjónin til Póllands í gær. Þjófurinn hringdi þó í gærkvöldi í Kinga Begnarz, móður unga mannsins, og sagði henni hvar hægt væri að finna öskuna.

Hún segir þjófinn hafa verið grátandi þegar hann hringdi og hann hafi beðist afsökunar á því að hafa valdið henni og fjölskyldunni skaða.

Í samtali við blaðamann BBC sagði Kinga að hún hefði verið miður sín þegar hún fór frá Kýpur í gær og óttaðist að ösku hans hafi verið hent í ruslið einhversstaðar.



Áður en þau fóru biðluðu þau hjón til þjófsins eða þjófanna í gegnum fjölmiðla og báðu þá um að skila öskunni. Það virðist hafa skilað árangri þar sem þjófurinn hringdi í hana í gærkvöldi. Kinga segist ekki reið þjófinnum. Þess í stað vonist hún til þess að hann noti tækifærið til að breyta lífi sínu til hins betra.

„Hann hefur mennskar tilfinningar og er góðhjartaður,“ sagði hún.

Lögreglan á Kýpur segir þrjá í haldi vegna málsins og að þau standi frammi fyrir ákærum sem snúa að þjófnaði og skemmdarverkum.

Kinga segir þau ætla að fljúga aftur til Kýpur á morgun og klára að dreifa ösku sonar þeirra. Fyrst þurfi þau þó að jafna sig aðeins.

„Ég hef ekki sofið frá því á föstudaginn,“ sagði Kinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×