Innlent

Hitavatnslaust í Vesturbænum: Íbúar búi sig undir kalt kvöld

Samúel Karl Ólason skrifar
Ekki er hægt að bíða með að gera við lögnina fram á kvöld. Því verður heitavatnslaust í Reykjavík vestan Snorrabrautar fram á kvöld og jafnvel nótt.
Ekki er hægt að bíða með að gera við lögnina fram á kvöld. Því verður heitavatnslaust í Reykjavík vestan Snorrabrautar fram á kvöld og jafnvel nótt. Vísir/Birgir

Heitavatnslaust verður í Reykjavík vestan Snorrabrautar í dag og fram á kvöld eða nótt. Alvarlegur leki uppgötvaðist í einni af aðalæðum hitaveitu Veitna um hádegið og var reynt að draga úr lekanum svo hægt yrði að bíða með viðgerð fram á kvöld. Það heppnaðist ekki og þurfti að hefja viðgerðir strax og loka æðinni.

Veitur benda íbúum á að skrúfa fyrir alla heitavatnskrana til að draga úr hættu á slysi eða tjóni þegar vatnið kemst á að nýju. Ráðlegt að hafa glugga lokaða og útidyr ekki opnar lengur en þörf krefur til að koma í veg fyrir að það kólni.

Æðin sem bilaði er ein af aðalæðum hitaveitunnar, 50 sentimetrar í þvermál, en ástæða þess að vatnsleysi verður svo víðtækt við viðgerðina er að slökkva þarf á dælustöð hitaveitunnar í Öskjuhlíð meðan á viðgerð stendur.

Vesturbæjarlaug hefur verið lokað í dag.

Bilunin er rétt við Bústaðaveg í grennd við Valsheimilið og eru vegfarendur þar beðnir að sýna aðgát.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Vísir/Birgir
Vísir/Birgir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×