Erlent

Óttast að þriðjungur kóalabjarna hafi orðið gróðureldum að bráð

Andri Eysteinsson skrifar
Kóalabirnir eiga um sárt að binda vegna eldana.
Kóalabirnir eiga um sárt að binda vegna eldana. Getty/Brook Mitchell

Umhverfisráðherra Ástralíu, Sussan Ley, óttast að um þriðjungur allra kóalabjarna landsins hafi orðið eldi að bráð í gróðureldunum sem hafa brunnið í landinu undanfarna mánuði með skelfilegum afleiðingum fyrir flóru og fánu. CNN greinir frá.

Í viðtali við áströlsku útvarpsstöðina ABC sagði umhverfisráðherrann að stór hluti þess landsvæðis sem kóalabirnir hafa dvalið á hafi orðið eldi að bráð, því óttist hún um afdrif stórs hluta stofnsins.

„Það er mögulegt að um þriðjungur stofnsins hafi drepist þar sem að um þriðjungur híbýla þeirra hefur orðið eldi að bráð. Við munum vita meira þegar hægt verður að ráða niðurlögum eldsins og rannsaka svæðið,“ sagði Ley.

Stofn kóalabjarna er flokkaður sem viðkvæm tegund í flokkunarkerfi alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna IUCN og eru Kóalabirnir því líklegir til að lenda í hættu á aldauða en þá er eingöngu að finna í austurhluta Ástralíu og þá sérstaklega í Nýju Suður Wales þar sem eldarnir hafa brunnið hvað mest.

Önnur hitabylgja væntanleg

Gróðureldar hafa geisað í Ástralíu undanfarna mánuði og hafa alls níu manns látið lífið vegna eldanna og um 800 heimili hafa gjöreyðilagðst í eldunum.

Umhverfisráðherrann Ley sagði í viðtalinu að unnið væri að málefnum dýranna með sérfræðingum og sagði ríkisstjórnina hafa varið sex milljónum ástralskra dala í verndunarúrræði fyrir Kóalabirni.

Talið er að ekkert lát verði á erfiðum aðstæðum í Ástralíu í næstu viku en spáð hefur verið hitabylgju í landinu um helgina og fram í næstu viku. Talið er að hár lofthiti í bland við vind geti ýtt undir útbreiðslu eldanna líkt og hefur verið uppi á teningnum undanfarið. Í liðinni viku glímdu Ástralir við aðra hitabylgju en meðalhiti í landinu náði 41,9°C.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×