Innlent

Slys varð á Breiðamerkurjökli

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Björgunarsveitir eru nú á leið niður af Breiðamerkurjökli með manninn sem slasaðist.
Björgunarsveitir eru nú á leið niður af Breiðamerkurjökli með manninn sem slasaðist. aðsent/landsbjörg

Þyrla Landhelgisgæslunnar er á leiðinni austur að Breiðamerkurjökli en björgunarsveitir voru kallaðar út um klukkan eitt í dag þegar íslenskur karlmaður féll á jöklinum og slasaðist.

Maðurinn, sem er leiðsögumaður, var á göngu um jökulinn með hóp fólks þegar hann datt. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir aðstæður á jöklinum sérstaklega erfiðar. Búið sé að rigna töluvert sem geri jökulinn hálli en ella, lélegt skyggni sé og færð.  

Maðurinn hlaut opið beinbrot og er því mikið kvalinn. Björgunarsveitir og sjúkraflutningamenn náðu til hans upp úr klukkan þrjú og er verið að bera hann niður eins og er. Búið er að flytja hópinn sem hann var með niður af jöklinum.

Notast verður við svokallaða svifnökkva þegar komið verður að Veðurárlóni sem er skammt frá slysstaðnum en það eru eins konar sjúkraflutningabörur með uppblásnum belgjum og stórri viftu sem auðvelda flutninginn yfir vatnið. Ferðin er þá mýkri og ekki eins sársaukafull fyrir manninn. Notast verður við svifnökkvann áleiðis að stað þar sem þyrla mun ná í hann. 

Davíð býst við því að þyrlan nái til þeirra fljótlega og flytji manninn á sjúkrahús þegar hún snýr aftur til Reykjavíkur.

Verið er að bera manninn niður af jöklinum.aðsent/landsbjörg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×