Innlent

Aðstæður í Sölvadal „eins krefjandi og erfiðar“ og hugsast getur

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Hátt í áttatíu manns taka þátt í björgunaraðgerðunum í Sölvadal.
Hátt í áttatíu manns taka þátt í björgunaraðgerðunum í Sölvadal. Vísir/Tryggvi

„Í morgun höfum við verið að vinna að því að fá fleira fólk til að starfa að þessu verkefni með okkur og það hafa verið að tínast inn, á síðasta klukkutímanum, bjargir með flugi og landleiðina; koma þá aðallega frá höfuðborgarsvæðinu sem eru lögregla, björgunarsveit, kafarar og þessi hópur er svona að detta inn á vettvang hjá okkur núna í Sölvadal og þar erum við að hefjast handa með viðamikla leit á því svæði sem við teljum líklegast en áin er mjög þung vegna krapa og erfið yfirferðar.“

Þetta segir Hermann Karlsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Norðurlandi eystra, um björgunaraðgerðirnar í Sölvadal þegar fréttastofa náði tali af honum rétt fyrir hádegisfréttir Bylgjunnar.  Líkt og Vísir hefur greint frá féll unglingspiltur í Núpá þegar hann var að aðstoða bónda við að koma rafmagni aftur á.

Viðbragðsaðilar eru í kappi við tímann því mikið frost er í kortunum. Hátt í áttatíu manns koma með einum eða öðrum hætti að björgunaraðgerðum en aðstæður á slysstað eru með versta móti.

„Þetta eru erfiðar aðstæður að kljást við, frost er að aukast, það hjálpar okkur ekki. Þetta verður stífara og stífara að vinna með með hverjumk lukkutímanum. Það er okkar keppikefli að leggja mikinn þunga í þetta frá hádegi og fram eftir degi í að leita eins vel og við getum.“

Hefur ekkert rofað til? Er birta?

„Það er kannski pínu birta, það er bjartasti tími dagsins núna í vændum en það er bara skafrenningur, ofankoma og hundleiðinlegt veður þarna og erfitt. Það er ekki að hjálpa okkur heldur. Aðstæður eru eins krefjandi og erfiðar og hægt er að hafa í verkefni sem þessu.“

Landhelgisgæslan óskaði eftir liðsinni danska flughersins vegna leitarinnar og Danir vel í beiðnina og lenti vélin á Reykjavíkurflugvelli 11:48.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×