Innlent

Vilja vita hvort reynt hafi á hæfi Kristjáns Þórs í málum tengdum Samherja

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Vísir/Vilhelm

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur sent upplýsingabeiðni til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins þar sem meðal annars er óskað eftir því hvort og þá með hvaða hætti hafi reynt á hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í málum er tengjast Samherja.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Alþingi þar sem segir að upplýsingabeiðnin sé liður í fumkvæðisathugunar á hæfi Kristjáns Þórs í ljósi stöðu hans gagnvart útgerðarfyrirtækinu Samherja.

Kristján Þór sagðist árið 2017 að hann myndi meta hæfi sitt sérstaklega ef upp komi mál í hans embættistíð sem snerti Samherja. Hann var stjórnarmaður í fimm ár hjá fyrirtækinu og hefur í tvígang þegið fjárhagslegan styrk frá Samherja í prófkjörsbaráttu innan Sjálfstæðisflokksins.

Tillaga Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata og formanns nefndarinnar, um að hefja frumkvæðisathugun á hæfi Kristjáns Þórs vegna Samherjamálsins var samþykkt fyrr í þessum mánuði af tveimur þingmönnum stjórnarandstöðunnar í nefndinni. Meirihlutinn fól þó varaformanni nefndarinnar að fara fyrir málinu.

Nefndin hefur nú óskað eftir skriflegri greinargerð frá ráðuneytinu með upplýsingum um eftirfarandi atriði:

  • Hvort og þá með hvaða hætti reynt hafi á hæfi ráðherra, á starfstíma ríkisstjórnarinnar, í málum er tengjast Samherja og/eða tengdum aðilum.
  • Hvernig hæfi ráðherra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er metið, verkferla og verklag, m.t.t. skráðra sem og óskráðra hæfisreglna stjórnsýsluréttar.
  • Hvaða lög/lagaákvæði liggja til grundvallar mati á hæfi ráðherra og mati á tengdum aðilum.

Hefur ráðuneytið frest til 17. janúar næstkomandi til að skila greinargerðinni.


Tengdar fréttir

„Ég svara því bara fullum hálsi“

Frumkvæðisathugun á hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra verður til umfjöllunar á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í dag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.