Erlent

Trump mætir ekki fyrir nefndina til að svara fyrir meint em­bættis­brot

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Donald Trump, Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, Bandaríkjaforseti. vísir/getty

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, og lögfræðingar hans hafa gefið það út að þeir ætli ekki mæta fyrir dómsmálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings næstkomandi miðvikudag til þess að gefa skýrslu. Ástæðan fyrir þessari ákvörðun er sögð vera skortur á sanngirni.

Dómsmálanefnd fulltrúadeildarinnar, sem leidd er af Demókrötum, hefur haft meint embættisbrot Trump til rannsóknar. Hin meintu brot snúa að samskiptum Trump við forseta Úkraínu.

Að því er fram kemur á vef Guardian undirbýr nefndin nú að ljúka þeim hluta rannsóknarinnar sem snýr að því að finna út allar staðreyndir málsins.

Í kjölfarið skoðar nefndin hvort Bandaríkjaforseti verði mögulega ákærður fyrir embættisbrot vegna samskipta hans við Úkraínuforseta.

„Það er ekki hægt að ætlast til þess að við tökum þátt í skýrslutöku á meðan það er ekki búið að nafngreina öll vitni og á meðan það liggur ekki ljóst fyrir hvort dómsmálanefndin muni gæta sanngirni gagnvart forsetanum í komandi vitnaleiðslum,“ segir í bréfi sem Pat Cipollone, ráðgjafi í Hvíta húsinu, sendi formanni nefndarinnar.

Hann vísaði jafnframt í skort á sanngirni hingað til í ferlinu gagnvart Trump en útilokaði ekki að forsetinn gæfi skýrslu í málinu síðar meir, ef hnökrarnir sem forsetinn og menn hans telja að séu til staðar, verða lagaðir.

Trump hefur verið mjög gagnrýninn á málareksturinn í fulltrúadeildinni og talað um nornaveiðar. Þá hefur hann alfarið neitað því að hafa brotið af sér í starfi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.