Erlent

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna hefst í Madríd

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Patricia Espinosa, loftslagsstjóri SÞ, og Antonio Guterres, framkvæmdastjóri SÞ, á fundi í aðdraganda ráðstefnunnar.
Patricia Espinosa, loftslagsstjóri SÞ, og Antonio Guterres, framkvæmdastjóri SÞ, á fundi í aðdraganda ráðstefnunnar. vísir/getty
Stjórnmálamenn og baráttumenn gegn loftslagsbreytingum hittast á hinni árlegu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem að þessu sinni fer fram á Spáni. Ráðstefnan hefst í dag og stendur í tvær vikur.

Upphaflega stóð til að halda ráðstefnuna í Chile en almenn mótmæli þar í landi sem verið hafa síðustu mánuði komu í veg fyrir það. Var því brugðið á það ráð að flytja ráðstefnuna til Spánar en Chile er þó enn gestgjafinn. Tæplega þrjátíu þúsund gestir sitja ráðstefnuna næstu tvær vikurnar.

Antonio Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir lítinn tíma til stefnu og að næstu tólf mánuðir muni skipta höfuðmáli í baráttunni gegn loftslagsvánni.

Hann segir að þau ríki sem mengi mest verði að leggja mun meira í púkkið þegar kemur að aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en takast á að ná jafnvægi fyrir árið 2050, eins og stefnt er að.

Um fimmtíu þjóðarleiðtogar munu mæta á ráðstefnuna, enda hafa nær öll ríki jarðar skrifað undir Parísarsáttmálann svokallaða.

Helsta undantekningin frá því er þó Bandaríkin, sem drógu sig úr út samkomulaginu á dögunum, en engin þjóð hefur lagt jafnmikið til mengunar jarðar og þau. Donald Trump Bandaríkjaforseti mun því ekki mæta á ráðstefnuna í Madríd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×