Innlent

Reykjanesbraut kláruð á árabilinu 2025 til 2029

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Reykjanesbraut. Kaflinn milli Hvassahrauns og Krýsuvíkurafleggjara bíður næstu fimm ár, samkvæmt samgönguáætlun.
Frá Reykjanesbraut. Kaflinn milli Hvassahrauns og Krýsuvíkurafleggjara bíður næstu fimm ár, samkvæmt samgönguáætlun. Vísir/vilhelm
Beðið verður með tvöföldun Reykjanesbrautar, milli Straumsvíkur og Hvassahrauns, til ársins 2025, samkvæmt samgönguáætlun sem birt var um helgina. Sama gildir um breikkun Suðurlandsvegar út frá Reykjavík. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. 

Af stóru samgönguæðunum út frá Reykjavík er breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes sett í forgang í samgönguáætlun næstu fimm ára. Fjögurra milljarða króna framlög í þennan átta kílómetra kafla miða við að framkvæmdir gætu hafist seint á næsta ári og þeim ljúki árið 2023.

Vegarkaflinn um Kjalarnes sem á að breikka er frá Mosfellsbæ að Hvalfjarðargöngum.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Á Reykjanesbraut er núna verið að tvöfalda þriggja kílómetra kafla í Hafnarfirði, milli Kaldárselsvegar og Krýsuvíkurvegar. Því verki á að vera að fullu lokið í nóvember á næsta ári.

Þá hefðu einhverjir búist við að í beinu framhaldi yrði haldið áfram að tvöfalda það sem eftir er af Reykjanesbrautinni. Nei, þá tekur við fimm ára framkvæmdahlé.

Svona mun Reykjanesbraut líta út eftir breikkunina í gegnum Hafnarfjörð, sem lýkur eftir tæpt ár. Síðan tekur við fimm ára framkvæmdahlé.Teikning/Vegagerðin.
Kaflinn framhjá Straumsvík, sem eftir er, milli Krýsuvíkurgatnamótanna og Hvassahrauns, alls 5,5 kílómetrar, kemst ekki inn á næstu fimm ára samgönguáætlun. Hann er settur inn á annað tímabili á fimmtán ára langtímaáætlun, með 3,3 milljarða króna fjárveitingu á árabilinu 2025 til 2029. Það stefnir því í að enn líði áratugur þangað til tvöföldun Reykjanesbrautar lýkur milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur.

Sama gildir um breikkun Suðurlandsvegar út frá Reykjavík. 8,6 kílómetra kafli frá Rauðavatni og upp fyrir Lögbergsbrekku fær fjögurra milljarða fjárveitingu á árabilinu 2025 til 2029.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.