Innlent

Peningarnir klárir í Dynjandisheiði og þriggja ára matsferli á lokastigi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Dynjandisheiði. Samgönguáætlun boðar að kaflinn milli Mjólkár og Flókalundar verði endurbyggður á árunum 2020 til 2024 og kaflinn til Bíldudals á árunum 2025 til 2029.
Dynjandisheiði. Samgönguáætlun boðar að kaflinn milli Mjólkár og Flókalundar verði endurbyggður á árunum 2020 til 2024 og kaflinn til Bíldudals á árunum 2025 til 2029. Grafík/Hafsteinn Þórðarson.
Vegagerð við fossinn Dynjanda og um friðlandið í Vatnsfirði eru taldir viðkvæmustu þættir umhverfismats vegna Vestfjarðavegar um Dynjandisheiði. Matsferlið, sem nú er á lokastigi, hefur staðið í þrjú ár og er talið kosta Vegagerðina um 150 milljónir króna. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. 

Samgönguáætlun, sem birt var á Alþingi í gær, sýnir þessa 65 kílómetra vegagerð fullfjármagnaða, með upphaf framkvæmda á næsta ári, 550 milljónir króna árið 2020. Kaflinn milli Mjólkár í Arnarfirði og Flókalundar í Vatnsfirði, 35 kílómetrar, á að klárast árið 2024, með alls 5,8 milljarða króna fjárveitingu. 

Kaflinn af Dynjandisheiði að Bíldudalsflugvelli, 30 kílómetra langur, er tímasettur í langtímaáætlun á árabilinu 2025 til 2029 með alls 4,8 milljarða króna fjárveitingu á þessu tímabili.

Vegurinn um Dynjandisheiði á Vestfjörðum er einn lengsti samfelldi ómalbikaði kaflinn á þjóðvegakerfi landsins.Vísir/Egill Aðalsteinsson.
Engar vinnuvélar verða þó hreyfðar fyrr en tilskilin leyfi eru fengin, umhverfismati lokið og hugsanleg kærumál útkljáð. 

Vinna við umhverfismatið hófst árið 2016, að sögn Guðmundar Vals Guðmundssonar, forstöðumanns hjá Vegagerðinni, og áætlar hann að það muni kosta um 150 milljónir króna. Þar af kosti aðkeypt ráðgjöf mismunandi sérfræðinga 35 til 40 milljónir króna.

Úr Vatnsfirði. Flókalundur til vinstri.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson
Meðal annars hafa fornleifar í grennd við vegstæðið verið skráðar, gróðurfar rannsakað, lífmassamælingar gerðar á birki, leitað var að sjaldgæfum plöntum, fuglalíf rannsakað, en einnig lífríki í ám og vötnum á áhrifasvæði vegarins sem og fjörulíf. Og nú er komið að því að birta frummatsskýrsluna á næstu dögum. 

„Þegar Skipulagsstofnun er búin að segja sitt álit og leggur þetta fram til athugasemda þá náttúrlega kemur kæruferli í kjölfarið á því,“ segir Guðmundur Björgvinsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Ísafirði. Spurningin sé þá hvort sátt verði um verkefnið. 

Guðmundur Björgvinsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Ísafirði.Stöð 2/Sigurjón Ólason.
„Við vitum að það eru þarna ákaflega viðkvæmir punktar í þessu. Annarsvegar friðland í Vatnsfirði og svo aftur friðlýst náttúruvætti vð Dynjanda. Og ef mönnum tekst vel til að leysa þau mál þá vonast maður til að það verði ekki mörg ljón á veginum,“ segir yfirverkstjórinn Ísafirði. 

Og þá gæti fyrsti áfangi farið í útboð á næsta ári. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×