Erlent

Eif­fel­turninn lokaður og lamaðar al­mennings­sam­göngur

Atli Ísleifsson skrifar
Frá mótmælum í frönsku hafnarborginni Marseille í morgun.
Frá mótmælum í frönsku hafnarborginni Marseille í morgun. AP
Umfangsmiklar verkfallsaðferðir franskra stéttarfélaga hafa haft mikil áhrif á franskt samfélag það sem af er degi, þar sem skólastarf hefur fallið niður og almenningssamgöngur raskast.

Verkafólk er með verkfallsaðgerðunum að lýsa yfir óánægju með lagabreytingar sem fela í sér að vinnandi neyðist til fara síðar á eftirlaun eða þá þola skertar lífeyrisgreiðslur.

Auk starfsmanna innan skólakerfisins og almenningssamgangna hafa lögreglumenn, lögfræðingar, sjúkrahússtarfsmenn og flugvallarstarfsmenn lagt niður störf. Áætlað er að milljónir hafi farið í verkfall í Frakklandi í dag til að þrýsta á breytingar.

Verkfallsaðgerðirnar eru þær umfangsmestu í landinu um árabil en megn óánægja er með fyrirætlanir Emmanuel Macron Frakklandsforseta um samræmt lífeyriskerfi í landinu.

Að neðan má sjá myndir frá Eiffelturninum þar sem ferðamenn komu að lokuðum kofanum í morgun.

Innanríkisráðherrann Christophe Castaner sagði í gærkvöldi að yfirvöld ættu von á um 250 mótmælasamkomum víðs vegar um landið í dag. Varaði hann við að til óeirða gæti komið á einhverjum stöðum.

„Við vitum að þessi mótmæli verða fjölmenn og við þekkjum áhættuna. Ég hef óskað eftir því að þegar óeirðir blossa upp og kemur til ofbeldis þá verði gripið til handtaka tafarlaust.“

Óeirðalögregla í París leitaði í töskum fólks snemma í morgun á breiðstrætinu Champs-Élysées og þá var búðum, sem standa á þeirri leið sem áætlað er að kröfuganga verði farin, gert að loka.

Almenningssamgöngur hafa raskast mikið og má þar nefna að einungis fimm af sextán neðanjarðarlestarlínum höfuðborgarinnar París hafa verið virkar í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×