Innlent

Tví­sýnt með akstur Strætó í höfuð­borginni á morgun

Atli Ísleifsson skrifar
Líkur eru á að veðrið hægi á umferð og farþegar Strætó á höfuðborgarsvæðinu geta búist við seinkunum á morgun.
Líkur eru á að veðrið hægi á umferð og farþegar Strætó á höfuðborgarsvæðinu geta búist við seinkunum á morgun. vísir/vilhelm

Óvissa er varðandi akstur Strætós á morgun vegna óveðursins sem nálgast nú landið. Í tilkynningu frá Strætó segir að gera megi ráð fyrir að flestar strætóferðir á landsbyggðinni falli niður eftir hádegi á þriðjudag og gætu orðið óvirkar fram á miðvikudag.

„Farþegar sem ferðast daglega með Strætó á landsbyggðinni er sérstaklega bent á að fylgjast með fréttum og skipuleggja ferðir sínar til og frá vinnu samkvæmt veðurspá.

Strætó á höfuðborgarsvæðinu

Líkur eru á að veðrið hægi á umferð og farþegar Strætó á höfuðborgarsvæðinu geta búist við seinkunum á morgun. Við mælum með að farþegar fylgist með staðsetningu vagna í Strætó appinu eða á heimasíðu Strætó áður en haldið er út á biðstöð.

Tvísýnt gæti orðið með nokkrar leiðir Strætó innan höfuðborgarsvæðisins, eins og leið 15 sem ekur Vesturlandsveg milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Stjórnstöð Strætó fylgist náið með stöðunni og tilkynnir um frávik sem kunna að verða á akstri.

Hægt er að nálgast tilkynningar undir „gjallarhorninu“ á heimasíðu Strætó eða inn á Twitter síðu Strætó,“ segir í tilkynningunni.

Samkvæmt upplýsingum frá Strætó féllu ferðir á höfuðborgarsvæðinu síðast niður vegna veðurs í febrúar 2017 þegar snjódýpt mældist 51 sentimetri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×