Erlent

Dauður hvalur fannst í London

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hrefna. Myndin tengist fréttinni með óbeinum hætti.
Hrefna. Myndin tengist fréttinni með óbeinum hætti. Wikimedia Commons/NOAA
Dauðum hval skolaði upp á bakka Thames-ár í London í annað sinn á tveggja mánaða tímabili.

Hvalurinn, sem samkvæmt breska ríkisútvarpinu er talinn vera hrefna, fannst hreyfingarlaus undir Battersea-brúnni seint á föstudagskvöld. Hafnaryfirvöld í London segja að unnið sé að því að fjarlægja hræið í eins heilu lagi og mögulegt er.

Í síðasta mánuði skolaði dauðum hnúfubak upp á bakka sömu ár.

Clio Georgiadis sagði í samtali við BBC að hún hafi verið á gangi með hundinn sinn þegar hún kom að hvalnum á tíunda tímanum í gærkvöldi.

„Ég var í tilfinningalegu uppnámi. Við reyndum að sjá hvort hann væri með lífsmarki en það var enginn andardráttur. Þetta var mjög sorglegt að sjá.“

Hafnaryfirvöld í borginni höfðu fengið ábendingar um stórt dýr í ánni Thames. Ekki kom á daginn um hvaða dýr var að ræða fyrr en hvalnum, sem eins og áður sagði er talinn vera hrefna, skolaði dauðum upp á bakkann.

Hrefnur sjást af og til í breskri hafsögu, en þær þrífast best í köldum sjó. Dreifing þeirra um heiminn er afar mikil, en hrefnur er að finna í Atlantshafi, Kyrrahafi, Indlandshafi, Norður- og Suður-Íshafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×