Erlent

Þunguð kona lést eftir hundsbit

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Veiðihundar liggja undir grun. Þessi er þýskur og tengist fréttinni ekki beint.
Veiðihundar liggja undir grun. Þessi er þýskur og tengist fréttinni ekki beint. Getty/Westend61
Kona á þrítugsaldri lést eftir að hafa orðið fyrir árás hunda í norðanverðu Frakklandi. Grunur leikur á að hundarnir hafi verið á vegum veiðimanna sem staðfest þykir að hafi verið á veiðum í nágrenninu, skammt frá bænum Villers-Cotterêts.Konan, sem var með barni, hafði verið á göngu með hundana sína fimm þegar árásin varð. Saksóknari málsins sagði í samtali við þarlenda fjölmiðla að konan hafi skömmu fyrir andlátið hringt í eiginmann sinn og lýst yfir áhyggjum sínum af hópi hunda sem hún óttaðist að myndu ráðast á sig. Það var eiginmaður hennar sem gekk fram á lík konunnar að sögn saksóknara, eftir að hafa heyrt angistarvein í hundum þeirra hjóna.Banamein konunnar er talið hafa verið fjöldi hundsbita í höfuð, búk og handleggi. Lögreglan segir málið rannsakað sem manndráp. Tekin hafa verið lífsýni úr 93 hundum við rannsóknina, þar á meðal fimm hundum hjónanna.Að sögn staðarblaðsins Le Courrier Picard voru fyrrnefndir veiðihundar, sem grunur leikur á að hafi ráðist á konuna, á dádýraveiðum með hópi veiðimanna. Samtök þarlendra veiðimanna þvertaka hins vegar fyrir aðkomu þeirra, ekkert bendi til þess að veiðihundar hafi átt þátt í andláti konunnar.Franska leikkonan og dýravinurinn Brigitte Bardot er þó á öðru máli. Hún hefur hvatt frönsk stjórnvöld til að banna frekari veiðar í landinu, alla vega út þetta veiðitímabil.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.