Innlent

Borginni gert að kynjamerkja klósett

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Klósettin í skrifstofuhúsnæði borgarinnar, bæði í Borgartúni og við Tjörnina, skulu kynjamerkt að sögn Vinnueftirlitsins.
Klósettin í skrifstofuhúsnæði borgarinnar, bæði í Borgartúni og við Tjörnina, skulu kynjamerkt að sögn Vinnueftirlitsins. Vísir/Daníel
Vinnueftirlitið hefur farið þess á leit við Reykjavíkurborg að salerni í skrifstofuhúsnæði borgarinnar verði aftur kynjamerkt, eftir úttekt á klósettmerkingum í Borgartúni. Borgin fjarlægði kynjamerkingar af salernum í stjórnsýsluhúsum sínum eftir samþykkt mannréttindaráðs borgarinnar þess efnis í fyrrasumar. Vinnueftirlitið segir reglugerð um húsnæði vinnustaða þó krefjast þess að klósettin séu kynjamerkt.

Reykjavíkurborg andmælti kröfu Vinnueftirlitsins, að sögn Morgunblaðsins, og vísaði til áherslu borgarinnar um að vinna gegn hvers kyns mismunun. Fjöldi vinnustaða og stofnanna hafi áður fjarlægt kynjamerkingar af klósettum sínum. Má þar til að mynda nefna Verzlunarskóla Íslands og Hornafjarðarbæ. Salernisferðir á almenningsklósett geta verið kvíðavaldandi fyrir kynsegin fólk, eins og formaður Jafnréttisnefndar HÍ benti á í samtali við fréttastofu á sínum tíma, og því mikilvægt að hafa aðgang að salernum sem gera ráð fyrir fólki utan hinnar hefðbundnu kynjatvíhyggju.

Sjá einnig: Hafi áður fengið grænt ljós fyrir klósettmerkingunumVinnueftirlitið gerði borginni engu að síður að koma upp kynjamerkingum fyrir 14. október síðastliðinn og vísaði til fyrrnefndrar reglugerðar máli sínu til stuðnings. Reglugerðin kveður á um að vinnustaðir þar sem fleiri en fimm karlar og fimm konur starfa að staðaldri þurfa að vera með aðgreind salerni fyrir hvort kyn. Þær forsendur eigi við um skrifstofuhúsnæði borgarinnar í Borgartúni og að sögn Vinnueftirlitsins er ekki að sjá að víkja megi frá þessari reglu.

Vinnueftirlitið tekur þó fram við Morgunblaðið að ekkert sé því til fyrirstöðu að skrifstofuhúsnæði borgarinnar sé með kynlaus salerni, að því gefnu að þar sé einnig að finna kynjaskipti salerni í samræmi við fyrrnefnda reglu. Hún sé engu að síður í fullu gildi og því beri borginni að fara eftir henni.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.