Erlent

Eignaði sér heiðurinn af opnun verksmiðju sem hefur verið opin frá 2013

Samúel Karl Ólason skrifar
Tim Cook sýnir Donald Trump verksmiðjuna.
Tim Cook sýnir Donald Trump verksmiðjuna. AP/Evan Vucci
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, heimsótti verksmiðju þar sem Apple tölvur eru framleiddar í Texas í gær. Með honum var Tim Cook, forstjóri Apple. Það þykir svo sem ekki merkilegt fyrir utan það að Trump eignaði sér heiðurinn af því að verksmiðjan hafi verið opnuð og virtist hann halda því fram að hún hafi verið opnuð í gær. Hið rétt er að verksmiðjan opnaði árið 2013.

Þetta mun vera í þriðja sinn á þessu ári, sem Trump skoðar gamlar verksmiðjur og eignar sér heiðurinn af því að þær hafi verið opnaðar. Hefur hann notað umræddar verksmiðjur til að halda því fram að efnahagsstefna hans hafi skilað árangri.

„Fyrir mér, er þetta mjög mikilvægur dagur,“ sagði Trump í gær. Þá tók Cook til máls og leiðrétti hann forsetann ekki. Hann þakkaði Trump og starfsmönnum hans fyrir stuðninginn og sagði að dagurinn hefði ekki gengið eftir án hans.

Trump ítrekaði það svo á Twitter að hann hefði opnað verksmiðjuna. Eins og áður segir var verksmiðjan opnuð árið 2013. Hún er í eigu fyrirtækis sem nefnist Flex og hefur framleitt Mac Pro tölvur frá því hún opnaði.

Nánast öll framleiðsla Apple gerist í Kína.

Blaðamaðurinn Daniel Dale, sem ver miklum tíma í að fylgjast með og greina sannleiksgildi ummæla og yfirlýsinga Trump, segir að þetta sé í þriðja sinn á þessu ári sem forsetinn eignar sér ranglega heiðurinn af opnun verksmiðja sem hann hefur heimsótt.

Hann geri það iðulega þegar hann skoðar verksmiðjur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.