Erlent

Hundar verða miðaldra tveggja ára

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Labrador retriever verður miðaldra hratt.
Labrador retriever verður miðaldra hratt. Nordicphotos/Getty
Vísindamenn við Kaliforníuháskóla í borginni Oakland hafa komist að því að svokölluð hundaár séu goðsögn og að hundar verði miðaldra um tveggja ára aldurinn.

Samkvæmt hefðbundnum hundaársreikningum hefur eitt ár í lífi hunds verið samsvarað sjö árum í lífi manna. En miðað við rannsóknina hafa hundar við þriggja ára aldurinn svipaða líkamsstarfsemi og fimmtug manneskja en ekki tvítug.

Helstu rannsóknirnar voru gerðar á erfðaefni hunda og manna. Eftir því sem frumurnar þroskast breytist erfðaefnið, sem gerir vísindamönnum kleift að reikna út lífaldurinn.

Þó að hundar eldist hratt fyrstu árin þá hægist á öldruninni eftir fyrstu árin. Er því tíu ára gamall hundur í svipuðu formi og sjötug manneskja. Þetta eru þó nokkuð mikil einföldun því að munur er á tegundum.

Einnig voru hvolpar rannsakaðir. Samkvæmt því kom í ljós að 8 vikna hvolpar hafa svipaða líkamsstarfsemi og 9 mánaða börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×