Erlent

Biðjast afsökunar á að hafa beðið starfsfólk um að senda inn myndir af sér fáklæddu

Andri Eysteinsson skrifar
Mæla átti fatastærðir útfrá myndunum.
Mæla átti fatastærðir útfrá myndunum. Getty/Ullstein Bild
Hollenska verslanakeðjan Albert Heijn hefur hætt við tilraunaverkefni sitt í borginni Nijmegen eftir harða gagnrýni Persónuyfirvalda og á samfélagsmiðlum. Fyrirhugað var að skaffa starfsmönnum nýja einkennisbúninga en óskað hafði verið eftir því að starfsfólk sendi inn myndir af sér fáklæddu til þess að unnt yrði að ákvarða stærðir. BBC greinir frá.

Yfir 100.000 manns starfa hjá verslunarkeðjunni en prófa átti verkefnið í Nijmegen þar sem 400 starfa. Talsmaður fyrirtækisins segir að starfsfólk hafi ekki verið skylt að hlaða upp myndum og liggur ekki ljóst fyrir hve margir það gerðu. Tilraunin átti að standa í tvær vikur en hefur hún nú verið stöðvuð.

„Verið klædd í nærföt eða þröng íþróttaföt svo hægt sé að mæla líkama ykkar nákvæmlega. Fáið einhvern nákominn til þess að taka myndirnar,“ stóð á kynningarspjaldi verkefnisins.

Aðferðir Albert Heijn komust í hollenska fjölmiðla og voru þær harðlega gagnrýndar á samfélagsmiðlum, Persónuvernd Hollands fékk einnig veður af málinu og gagnrýndi fyrirtækið einnig harðlega. Í fréttum hollenska miðilsins NRC segir að starfsfólki hafi verið tjáð að starfsfólki væri skylt að taka þátt í verkefninu.

Talsmaður fyrirtækisins segir að myndirnar hafi ekki verið aðgengilegar yfirmönnum í fyrirtækinu, myndirnar væru eingöngu greindar af forritinu. Bað talsmaðurinn starfsfólk verslunarinnar innilega afsökunar á málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×