Erlent

Forsetinn beið lægri hlut í kosningum

Atli Ísleifsson skrifar
Forsetinn José Mário Vaz greiðir atkvæði.
Forsetinn José Mário Vaz greiðir atkvæði. EPA
Fyrrverandi forsætisráðherrar Gíneu-Bissaú, Domingos Simões Pereira og Umaro Sissoco Embaló, munu etja kappi í síðari umferð forsetakosninganna í landinu. Fyrri umferð kosninganna fór fram á sunnudag.

Landskjörstjórn segir að hinn 56 ára Pereira hafi hlotið 40 prósent atkvæða í fyrri umferð kosninganna og Embalo 28 prósent. Sitjandi forseti, José Mário Vaz, hafi einungis hlotið 12 prósent atkvæða.

Stjórnartíð Vaz hefur einkennst af pólitískum átökum, afsögnum fjölda ráðherra og spillingu. Alls hafa sjö manns gegnt embætti forsætisráðherra frá því að Vaz tók við forsetaembættinu árið 2014.

Síðari umferð forsetakosninganna fer fram 29. desember næstkomandi.

Gínea-Bissaú er að finna á vesturströnd Afríku og eru íbúar þess um 1,9 milljónir. Landið lýsti yfir sjálfstæði frá Portúgal árið 1973.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×