Erlent

Sjö látnir eftir að flugvél hrapaði rétt fyrir utan borg í Kanada

Eiður Þór Árnason skrifar
Flugvélin er sögð hafa hrapað rétt fyrir utan borgina Kingston.
Flugvélin er sögð hafa hrapað rétt fyrir utan borgina Kingston. Google Maps
Lögreglan í kanadísku borginni Kingston greinir frá því að sjö manns hafi látið lífið eftir að lítil flugvél hrapaði seinni partinn á miðvikudag að staðartíma.

Flugvélin er sögð hafa farið frá borginni Markham í Ontario-fylki og átti hún að lenda á flugvelli í Kingston. Hún er talin hafa hrapað einungis nokkrum mílum frá áfangastað sínum. AP fréttastofan greinir frá þessu en samkvæmt frétt kanadíska miðilsins GlobalNews voru þrjú börn á meðal þeirra látnu.

Rannsókn samgönguyfirvalda á slysinu er hafin og telur lögreglan fullvíst að enginn um borð hafi lifað af slysið. Sterkir vindar og mikil rigning var á svæðinu þegar tilkynningin barst um slysið en óvíst er hvort að veðuraðstæður hafi átt þátt í slysinu.

Greint hefur verið frá því að um hafi verið að ræða vél af tegundinni PiperPA-32R sem skráð er í Bandaríkjunum. Samkvæmt tilkynningu frá samgönguyfirvöldum verður næst reynt að greina atburðarráðsina sem átti sér stað í aðdraganda slyssins og nálgast upplýsingar úr tækjabúnaði hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×