Fótbolti

Frakkar mörðu Moldóvu | Ronaldo með þrennu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Olivier Giroud
Olivier Giroud vísir/getty
Frakkar unnu sigur á Moldóvu og gulltryggðu sæti sitt á EM 2020 í kvöld. Albanir gerðu jafntefli við Andorra og Portúgal vann stórsigur á Litháen.

Frakkar lentu nokkuð óvænt undir á heimavelli gegn Moldóvu þegar Vadim Rata nýtti sér varnarmistök Frakka og skoraði á níundu mínútu.

Heimsmeistararnir voru hins vegar með öll völd á vellinum og jafnaði Raphael Varane metin á 35. mínútu.

Þrátt fyrir mikla pressu að marki Moldóvu þá var það ekki fyrr en á 77. mínútu að Frakkar uppskáru þegar þeir fengu vítaspyrnu.

Olivier Giroud fór á vítapunktinn og skoraði framhjá Alexei Coselev í markinu. Fleiri mörk náðu Frakkar ekki að skora og fóru með 2-1 sigur.

Þeir eru því með 22 stig á toppi H-riðils okkar Íslendinga þegar ein umferð er eftir. Í sama riðli mættust Albanía og Andorra, en hvorugt lið átti möguleika á að komast áfram fyrir leiki kvöldsins.

Leik þeirra lauk með 2-2 jafntefli.

Portúgal kom sér í góða stöðu í B-riðli með stórsigri á Litháen 6-0.

Cristiano Ronaldo skoraði þrennu í leiknum, Bernardo Silva gerði eitt mark og lagði auk þess upp tvö. Pizzi og Goncalo Paciencia gerðu svo sitt markið hvor.

Úrslit kvöldsins:

Tyrkland - Ísland 0-0

Albanía - Andorra 2-2

Tékkland - Kósovó 2-1

England - Svartfjallaland 7-0

Frakkland - Moldóva 2-1

Portúgal - Litháen 6-0

Serbía - Lúxemborg 3-2




Fleiri fréttir

Sjá meira


×