Innlent

Miðflokkur einn á móti bótamálinu

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Allir nefndarmenn styðja málið nema Anna Kolbrún.
Allir nefndarmenn styðja málið nema Anna Kolbrún. Fréttablaðið/Ernir
Anna Kolbrún Árnadóttir, fulltrúi Miðflokksins í allsherjar- og menntamálanefnd, leggst einn nefndarmanna gegn samþykkt frumvarps forsætisráðherra um heimild til að greiða bætur vegna sýknudóms Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum.

Í nefndaráliti hennar er byggt á því að efni frumvarpsins gangi gegn reglu stjórnarskrárinnar um þrískiptingu ríkisvalds en með því gangi löggjafinn inn á verksvið dómsvaldsins. Samþykkt frumvarpsins geti einnig skapað fordæmi sem geti haft varhugaverð áhrif á önnur mál einstaklinga sem sviptir hafa verið frelsi með óréttmætum hætti eða verið ranglega sakfelldir.

Meirihluti nefndarinnar mælist hins vegar til þess að frumvarpið verði samþykkt óbreytt og er í nefndaráliti litið svo á að samþykkt þess feli í sér staðfestingu á vilja stjórnvalda til að leita sátta.

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, Guðmundur Andri Thorsson, Samfylkingu, og Helgi Hrafn Gunnarsson, Pírötum, rita undir álit meirihlutans með þeim fyrirvara að málsmeðferð stjórnvalda í sáttaferlinu, sérstaklega framlagning greinargerðar setts ríkislögmanns í umboði ríkisstjórnarinnar sem vörn í bótamáli gegn ríkinu, hafi ekki verið til þess fallin að greiða fyrir farsælli lausn og sáttum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×