Innlent

Greiðslubyrði námslána verði lækkuð

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.
„BHM hefur árum saman barist fyrir því að endurgreiðslubyrði námslána verði létt og að ábyrgðarmannakerfið verði afnumið að fullu. Verði þessar tillögur að veruleika, sem ég ætla að vona að verði, þá eru þau baráttumál í höfn,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, um tillögur starfshóps um endurgreiðslubyrði námslána.

Forsætisráðherra skipaði starfshópinn í sumar í tengslum við kjaraviðræður á opinberum markaði. Fékk hópurinn það verkefni að yfirfara reglur vegna endurgreiðslu námslána. Var meðal annars bent á þá staðreynd að lántakar greiddu um fjögur prósent launa sinna í afborganir af námslánum sem svarar til um það bil einna mánaðarlauna á ári.

Í hópnum sátu fulltrúar þriggja ráðuneyta auk fulltrúa BHM og iðnaðarmanna. Þórunn gerir grein fyrir niðurstöðum hópsins í aðsendri grein á síðu 9 í blaðinu í dag.

Hún leggur áherslu á að samstaða hafi verið um tillögurnar. Verði umræddar tillögur að veruleika myndi það hlutfall af launum sem lántaki greiðir árlega í afborganir námslána lækka um tíu prósent. Þá er lagt til að vextir lækki úr einu prósenti í 0,4 prósent sem þýðir að afborganir lækka án þess að lánstími þurfi að lengjast.

Farið verður yfir stöðu kjaraviðræðna BHM við ríkið á baráttufundi í fyrramálið en 17 af 21 aðildarfélagi á enn ósamið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×