Innlent

Erfitt að sjá fram á að tapa öllum eigum sínum og jafnvel lífinu

Hrund Þórsdóttir skrifar
Þykkur reykur lá eins og mara yfir Sydney í dag vegna þeirra miklu gróðurelda sem geisa í suðausturhluta landsins. Loftgæðin í borginni eru mjög slæm og hafa flokkast sem hættuleg á sumum svæðum.

Sigmundur Valgeirsson hefur búið í Ástralíu í 29 ár og segir eldana þá verstu sem hann man eftir. Hann býr nú í þorpinu Tinonee skammt frá þar sem eldarnir hófust.

„Þetta eru ekki skemmtilegar tilfinningar, að sjá fram á að tapa öllu sem maður á, jafnvel lífinu,“ segir Sigmundur. „Þetta er frekar óhuggulegt, sérstaklega vegna þess að það hafa fjórir látist í þessum brunum hér í fylkinu og ein kona dó ekki langt frá héðan.“

Eldarnir hafa eyðilagt vel á sjötta hundrað heimila. Um fjórtán hundruð slökkviliðsmenn berjast við þá en heitt er í veðri, þurrt og vindasamt svo búast má við að ástandið versni enn.

Sigmundur og kona hans ákváðu að vera um kyrrt og verja húsið sitt, en eru tilbúin að flýja með stuttum fyrirvara. „Við gerðum ráð fyrir að þurfa að yfirgefa heimilið. Maður hefur þá sína helstu persónulegu muni, myndir og smávegis af fötum í bílnum, tilbúinn að keyra í burtu ef á þarf að halda.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.