Innlent

Staðfestir aðalskipulag með vegi um Teigsskóg

Kristján Már Unnarsson skrifar
Teigsskógarleiðin styttir Vestfjarðaveg um 22 kílómetra. Veglínan liggur þvert yfir mynni Gufufjarðar og Djúpafjarðar og yfir Þorskafjörð með þverun á móts við Þórisstaði.
Teigsskógarleiðin styttir Vestfjarðaveg um 22 kílómetra. Veglínan liggur þvert yfir mynni Gufufjarðar og Djúpafjarðar og yfir Þorskafjörð með þverun á móts við Þórisstaði. Teikning/Vegagerðin.
Skipulagsstofnun hefur staðfest veglínu Vestfjarðavegar um Teigsskóg og stefnir Vegagerðin að því að sækja um framkvæmdaleyfi fyrir lok mánaðarins. Sveitarstjóri Tálknafjarðar segist þó ekki trúa því að málið sé í höfn fyrr en vinnuvélarnar fara í gang. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. 

Fimm vikur eru frá því hreppsnefnd Reykhólahrepps samþykkti breytingu á aðalskipulagi þess efnis að Vestfjarðavegur liggi um hinn umdeilda Teigsskóg. Skipulagsstofnun hefur núna staðfest aðalskipulagsbreytinguna og segir Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri Reykhólahrepps, stefnt að því að auglýsa hana á morgun.

Magnús Valur Jóhannsson, framkvæmdastjóri mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar, bendir á svæðið þar sem deilt er um framtíðarlegu Vestfjarðavegar.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Það þýðir að Vegagerðin getur sótt um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórnar og vonast Magnús Valur Jóhannsson, framkvæmdastjóri mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar, til að það gerist fyrir lok nóvember. Fjárveitingar gera ráð fyrir 1.500 milljónum króna í verkið á næsta ári, en þær miða við að framkvæmdir fari á fullt næsta vor. 2.700 milljónir króna eru svo áætlaðar á árinu 2021 en Vegagerðin miðar við að verkinu ljúki árið 2023 og er það að fullu fjármagnað í samgönguáætlun. 

Sjá hér: Vonast til að geta boðið út Teigsskógarleið fyrir árslok 

Í byggðum á sunnanverðum Vestfjörðum óttast menn meiri tafir. 

„Við trúum þessu ekki fyrr en vinnuvélarnar fara í gang. Við skálum ekki strax. Þegar vinnuvélarnar fara í gang, þá erum við farin að trúa þessu. Þetta er búið að vera svo langur ferill og mikil vonbrigði oft,“ segir Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri Tálknafjarðar.

Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri Tálknafjarðar.Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Líklegt þykir að útgáfa framkvæmdaleyfis verði kærð, - Bryndís sveitarstjóri býst raunar við að andstæðingar reyni allt til að hindra vegagerðina. 

„Það er engin ástæða til að ætla að menn séu að leggja niður vopn núna, því miður.“ 

-Finnst ykkur þetta ósanngjörn barátta þeirra sem eru á móti þessu? 

„Já, mér finnst það. Við komumst hvergi héðan frá Tálknafirði eða Vesturbyggð án þess að fara malarvegi. Ég held að það séu engin byggð ból hér á Íslandi sem ekki komast til dæmis til Reykjavíkur, - ekki að minnsta kosti þorp af þessum stærðargráðum sem eru hérna, - án þess að þurfa að hossast yfir malarvegi,“ segir sveitarstjóri Tálknafjarðar.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.