Fótbolti

Meiðsli Kol­beins ekki eins slæm og óttast var: Frá í fjórar til sex vikur

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kolbeinn í leiknum gegn Tyrkjum í síðustu viku.
Kolbeinn í leiknum gegn Tyrkjum í síðustu viku. vísir/getty
Kolbeinn Sigþórsson, framherji AIK og íslenska landsliðsins í knattspyrnu, verður frá keppni í fjórar til sex vikur eftir meiðsli sem hann varð fyrir í landsleik gegn Moldóvu á sunnudagskvöldið.

Þetta skrifaði hann á Instagram-síðu sína í dag þar sem hann segir að ekkert sé slitið. Einungis sé um tognun á ökkla að ræða sem mun halda honum frá boltanum í mesta lagi næstu sex vikurnar.

Hann var studdur af velli á sunnudagskvöldið í leiknum gegn Moldóvu en hann hefur verið þjakaður af meiðslum síðustu árin. Flestir óttuðust því það versta en fréttirnar eru góðar fyrir AIK, íslenska landsliðið og Kolbein sjálfan.

Í sömu færslu þakkar Kolbeinn AIK og íslenska landsliðinu fyrir að leyfa sér að spila fótbolta á nýjan leik eftir að hafa verið í tæplega þrjú ár á meiðslalistanum og úti í kuldanum.

Karlalandsliðið mætir Rúmeníu eða Ungverjalandi í mars í umspili um sæti á EM næsta sumar. Dregið verður á föstudag. 






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×