Fótbolti

Berglind Björg markahæst í Meistaradeildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Berglind Björg í fyrri leiknum gegn PSG.
Berglind Björg í fyrri leiknum gegn PSG. vísir/daníel
Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði mark Breiðabliks þegar liðið tapaði fyrir Paris Saint-Germain, 3-1, á útivelli í seinni leik liðanna í 16-liða úrslit Meistaradeild Evrópu í gær. PSG vann einvígið, 7-1 samanlagt.

Berglind hefur skorað tíu mörk í Meistaradeildinni í ár. Enginn leikmaður hefur skorað fleiri mörk í keppninni en Eyjakonan.

Vivianne Miedema, leikmaður Arsenal, og Emueje Ogbiagbevha, leikmaður Minsk, hafa einnig skorað tíu mörk.

Berglind skoraði sex mörk í forkeppninni og bætti fjórum við í útsláttarkeppninni.

Hún skoraði fernu í 11-0 sigri á Dragon 2014 frá Norður-Makedóníu í forkeppninni og tvennu í 3-1 sigri á SFK 2000 frá Bosníu.

Berglind skoraði tvö mörk í 3-2 sigri Breiðabliks á Spörtu Prag í fyrri leik liðanna í 32-liða úrslitunum. Hún skoraði svo eina markið í 0-1 sigri Blika í seinni leiknum.

Í gær gerði Berglind svo sitt tíunda mark í Meistaradeildinni á tímabilinu. Hún skoraði þá af stuttu færi eftir fyrirgjöf Áslaugar Mundu Gunnlaugsdóttur.



Berglind hefur alls skorað 16 mörk í Evrópuleikjum á ferlinum. Hún er næstmarkahæsti íslenski leikmaðurinn í Evrópukeppnum. Önnur Eyjakona, Margrét Lára Viðarsdóttir, er sú markahæsta með 33 mörk.

Á þessu tímabili skoraði Berglind alls 26 mörk; tíu í Meistaradeildinni og 16 í Pepsi Max-deild kvenna þar sem hún varð markahæst annað árið í röð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×